*

mánudagur, 6. apríl 2020
Erlent 5. janúar 2020 14:02

Tesla byrjar árið vel

Sterkar afhendingartölur rafbílaframleiðandans hafa farið vel ofan í fjárfesta.

Ritstjórn
Elon Musk, forstjóri og stofnandi Tesla.
epa

Hlutabréf í rafbílaframleiðandanum Tesla byrjuðu árið vel í kjölfar fregna um að betur hafi gengið að afhenda bíla en spáð hafði verið undir lok nýliðins árs. Financial Times segir frá.

Alls afhenti fyrirtækið 367.500 bíla á árinu, sem er 50% fjölgun frá árinu áður, og nokkuð yfir neðri mörkum spár félagsins um „að minnsta kosti 360 þúsund“ frá því í október, en fyrr á árinu hafði spáin hljóðað upp á 360 til 400 þúsund. 105 þúsund bílar voru framleiddir á síðasta ársfjórðungi, þar af 87 þúsund af gerðinni Model 3, sem er nýjasti og ódýrasti bíll Tesla, og sá fyrsti í því sem kalla mætti almennum verðflokki.

Hlutabréfin hækkuðu um 4,4% frá opnun markaða í gær þegar mest lét, en enduðu daginn um 3% hærri, og höfðu þá hækkað um tæp 6% frá áramótum. Helsta áskorun sem fyrirtækið stendur frammi fyrir á nýju ári er að koma framleiðslu næsta bíls – smásportjeppans (e. crossover SUV) Model Y – á fullt skrið.

Stikkorð: Tesla Elon Musk