*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Erlent 25. júlí 2019 12:33

Tesla fellur í verði

Uppgjör Tesla fyrir annan ársfjórðung olli töluverðum vonbrigðum.

Ritstjórn

Rafbílaframleiðandinn Tesla skilaði 408 milljóna dollara tapi á öðrum ársfjórðungi þessa árs en félagið birti uppgjör sitt eftir lokun markaða vestanhafs í gær. Tap félagsins minnkaði miðað við sama tímabil í fyrra þegar það nam 717 milljónum dollara. Tapið nam 1,12 dollurum á hlut sem var hærra en meðaltal greiningaraðila upp á 40 sent. 

Tekjur félagsins námu 6,35 milljörðum dollara og jukust um ríflega 50% frá sama tímabili í fyrra en var þó rétt undir spám upp á 6,41 milljarð. Þrátt fyrir að félagið hafi skilað afkomu undir væntingum greiningaraðila stefnir Tesla enn á að selja og afhenda á bilinu 360-400 þúsund bíla á árinu. Tesla hefur afhent um 158.200 á fyrri helmingi ársins og þarf því að ýta á bensíngjöfina til þess að ná markmiðum sínum. 

Óhætt er að segja að fjárfestar hafi ekki tekið vel í uppgjör félagsins en gengi bréfa Tesla hafa lækkað um tæplega 11% á eftir markaði.

Stikkorð: Tesla