Elon Musk stofnandi  Tesla Motors tilkynnti í gær að fyrirtæki hans hafi birt öll einkaleyfi þess.

Á bloggi sínu útskýrir hann þessa óvenjulegu ákvörðun. "Tesla Motors var stofnað til að flýta þróun á sjálfbærum samgöngum. Ef við ryðjum brautina að áhugaverðum rafbílum, en leggjum síðan hugverkaréttarlegar jarðsprengjur fyrir aftan okkur til að hægja á öðrum, þá vinnum við gegn markmiði okkar."

Tesla er langdrægasti rafbíllinn á markaðnum í dag. Tesla S kemst tæpa 480 km á einni hleðslu við bestu aðstæður.

Meðal eigenda Tesla eru Daimler, móðurfélag Mercedes Benz með um 4,3% hlut og Toyota. Sjálfur á Musk um þriðjung hlutafjárins.