Bréf í rafbílaframleiðandanum Tesla ruku upp frá opnun markaða vestanhafs nú klukkan hálf 2 að íslenskum tíma, en hafa síðan lækkað örlítið aftur. Mest nam hækkunin tæpum 16% – sem gerir aukningu markaðsvirðis upp á hátt í 50 milljarða dala  – en þegar þetta er skrifað hefur hún lækkað aftur í 12,3%, og er gangvirði bréfanna nú 1.735 Bandaríkjadalir.

Bréfin hafa hækkað um 75% á tveimur vikum, og heildarmarkaðsvirði félagsins er orðið um 320 milljarðar dala, rúmum 50% hærra en næstverðmætasti og annar umfangsmesti bílaframleiðandi heims, Toyota.

Toyota og Volkswagen Group eru umfangsmestu bílaframleiðendur heims, og seldu hvort um sig tæpa 11 milljón bíla á síðasta ári, en samanlagt markaðsvirði þeirra er aðeins rúmir 300 milljarðar dala. Tesla seldi 367 þúsund eintök. Munurinn er hinsvegar fólginn í því að á meðan sölutölur risanna tveggja eru nokkuð stöðugar, hefur sala Tesla takmarkast nokkurnveginn alfarið við framleiðslugetu, sem fer stöðugt vaxandi.

Tesla hefur alla tíð notið mikillar sérstöðu á rafbílamarkaðnum, en stóru bílaframleiðendurnir þykja ekki hafa getað boðið samkeppnishæfa bíla hingað til. Rafbílaframleiðandinn sem kenndur er við Serbneska uppfinningamanninn goðsagnakennda hefur þótt bera höfuð og herðar yfir önnur félög hvað varðar tækni á borð við sjálfkeyrslu, rafhlöður, og aksturseiginleika, auk hugbúnaðarins sjálfs sem í bílunum er að finna.

Í ofanálag hafa viðskipti með hlutabréf félagsins verið ansi lífleg, en fjárfestar virðast skiptast í afar sundurleita hópa þeirra sem hafa tröllatrú á félaginu annarsvegar, og hinna sem eru mjög efins. Bréfin hafa verið þau mest skortseldu á bandarískum mörkuðum, og hefur Elon Musk stofnandi og forstjóri fyrirtækisins átt stormasamt samband við markaðsaðila, þá sérstaklega skortsalana.

Þegar bréfin hækka snögglega getur komið upp svokölluð skortþvingun (e. short squeeze), þar sem staða skortsala verður mjög neikvæð og þeir fá veðköll frá mótaðilum sínum. Geti þeir ekki reitt fram umbeðna fjárhæð neyðast þeir til að kaupa bréf á markaðsverði til að loka skortstöðum sínum, sem ýtir undir eftirspurn og hækkar þar með verðið.

Efasemdamenn hafa bent á að þótt almenna viðkvæðið sé að Tesla sé að auka framleiðslugetu sína hratt til að anna eftirspurn, sýni sölutölur annað. Á fyrri helmingi þessa árs afhenti félagið um 180 þúsund bíla, sem er talsvert minna en árshelminginn á undan, og aðeins um helmingur þess sem afhent var allt árið í fyrra.