Hlutabréfaverð Tesla hækkaði í viðskiptum fyrir opnun markaða þrátt fyrir fregnir um að Elon Musk, stofnandi og forstjóri bílaframleiðandans, hefði selt hluti í félaginu fyrir um 5 milljarða dollara undanfarna daga. Sagt er frá á vef Reuters .

Um helgina setti Musk könnun á Twitter síðu sína þar sem hann spurði hvort hann ætti að selja 10% hlut sinn í félaginu. Bréfin lækkuðu eilítið í kjölfar þess en hafa rétt úr kútnum þrátt fyrir að Musk hafi fylgt niðurstöðu könnunarinnar enn sem komið er. Bréf hækkuðu til að mynda um 3,6%, standa nú í rúmlega 1.106 dollurum á hlutinn, á sama bili og forstjórinn seldi.

Samkvæmt tilkynningum til markaðarins hefur Mush selt nærri 3,6 milljónir hluta sem hann átti fyrir. Þá nýtti hann sér áskriftarréttindi að 2,2 milljón hlutum en þar af seldi hann strax aftur 934 þúsund hluti. Salan nemur um 3% af heildareign forstjórans í félaginu.

„Ástæðan fyrir því að bréfin virðast vera að rétta úr kútnum er sú að það virðist vera eitthvað kerfi að baki óreiðunni. Þetta virðist snúast um að sýna markaðnum að þetta er ekki bara eitthvað sem hann tók upp á af því að Twitter könnun sagði honum að gera það. Hann var búinn að ákveða sig áður en niðurstöðurnar lágu fyrir,“ hefur Reuters eftir greinanda hjá AJ Bell.

Því til viðbótar hefur komið fram að núverandi og fyrrverandi stjórnarmenn, alls fjórir talsins, hafa ákveðið að selja bréf í félaginu sem voru virði um eins milljarðs dollara. Þau viðskipti áttu sér stað eftir að markaðsvirði Tesla fór yfir eina billjón dollara í síðasta mánuði.