Tesla hækkaði verð ódýrasta og vinsælasta bíls síns, Model 3, hér á landi í síðustu viku í annað sinn frá opnun útibús hér í september 2019.

Ódýrasta gerð hans, Standard Range Plus (SR+), kostar nú 5.705 þúsund, að viðbættu 133 þúsund króna afhendingagjaldi.

Ólíkt síðustu hækkun – þegar krónan hafði veikst verulega og verðið því lækkað mikið í Bandaríkjadölum talið – hefur hún nú styrkst á ný, ásamt því að bíllinn hefur verið lækkaður í verði á nánast öllum öðrum mörkuðum nýverið.

Óverulegar hækkanir

Hækkunin er öllu hóflegri en síðast. Long Range og Performance útgáfurnar hækka um 219 þúsund hvor, sem gerir 3,5% og 3,1% hækkun í þeirri röð, en Long Range er lang vinsælasta útgáfa bílsins, og kosta þeir nú 6.449 og 7.319 þúsund krónur án afhendingargjalds og skatta. SR+ hækkar um 154 þúsund eða 2,8%.

© vb.is (vb.is)

Even Sandvold Roland, talsmaður Tesla á Norðurlöndunum, segir í svari við fyrirspurn blaðsins að fyrirtækið tjái sig aldrei um verðbreytingar, en í samtali við miðilinn CleanTechnica í október síðastliðnum lét hann þó hafa eftir sér að það væri ekki sérlega góður tími fyrir fyrirtækið til að lækka verð, þar sem flutningar og afhendingar hefðu verið miklum vandkvæðum bundin vegna heimsfaraldursins.

Orðinn milljón krónum ódýrari vestanhafs

Model 3 var lækkaður talsvert víðs vegar um Evrópu í janúar á þessu ári. Sem fyrr er fátt um yfirlýsingar, en bent hefur verið á að talsverður fjöldi nýrra rafbíla hefur verið að koma á eða er væntanlegur á markað frá öðrum framleiðendum.

Model 3 er þó dýrari allsstaðar í Evrópu en hér á landi, og á sumum mörkuðum munar ansi miklu, en hafa verður hugfast að í mörgum löndum tíðkast beinar niðurgreiðslur á kaupverði rafbíla, sem geta gert endanlegt verð til neytenda lægra, og þar með gert bílaframleiðendum kleift að hafa verðið hærra.

Það sem kannski vekur einna mesta athygli er að verð SR+ hefur verið lækkað í tvígang nýverið á heimamarkaðnum, Bandaríkjunum, úr 40 þúsund dölum í 38 og síðan 37.

Hann er því orðinn mun ódýrari þar en í Evrópu, heilli milljón hér á landi, eftir að hafa verið á sama verði hér við opnun útibúsins. Það má því hugsanlega líta á hækkunina hér núna, þótt hógvær sé, sem nokkurs konar staðfestingu á þeim verðmun sem myndast hefur við Bandaríkjamarkað.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Ítarleg umfjöllun um stjórnarkjör Icelandair á föstudaginn.
  • Fjallað er um skráningu íslensks félags á markað í Noregi.
  • Samkvæmt frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra verður innleiðingu PSD2 gerðarinnar lokið um mitt þetta ár.
  • Lögmaður hyggst stefna ríkinu til ógildingar á úrskurði yfirskattanefndar eftir að nefndin og Skatturinn mátu sölu á kröfu hans til einkahlutafélags að vettugi virðandi.
  • Umhverfismál eru sérstakt hugðarefni Jónu Bjarnadóttur, nýráðins framkvæmdastjóra á sviði umhverfis og samfélags hjá Landsvirkjun.
  • Viðskiptaráð Ísland hefur greint hvernig aðgerðarpakkar hins opinbera hafa skipst á milli heimila og fyrirtækja.
  • Ullarþon, nýju verkefni á vegum Textílmiðstöðvar Íslands og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, er ætlað að auka verðmæti verðminni flokka íslensku ullarinnar.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um Pírata.
  • Óðinn skrifar um meingallað heilbrigðiskerfi.