Gengi bitcoin hefur hrapað um tæp 14% síðan að Elon Musk, framkvæmdastjóri Tesla, tilkynnti að Tesla tæki ekki lengur við myntinni sem greiðslumáta fyrir rafbíla fyrirtækisins. Gengi Bitcoin stendur nú í 6,14 milljónum króna en það var rétt rúmlega sjö milljónir áður en Musk greindi frá þessu á Twitter.

Musk segir að ekki sé hægt að réttlæta að taka við myntinni út frá umhverfissjónarmiðum. Hann segir að það sé áhyggjuefni að jarðeldsneyti, einkum kol, skuli notað við gröft á myntinni. Þá bætir hann við að rafmyntir eigi bjarta framtíð fyrir sér, en að hún geti ekki komið á kostnað umhverfisins.

Í febrúar keypti Tesla bitcoin fyrir 200 milljarða íslenska króna og hóf að taka við myntinni sem greiðslumáta. Í tilkynningunni segir Musk að fyrirtækið hyggist ekki selja bitcoinforða sinn. Þá mun fyrirtækið aftur taka við bitcoin sem greiðslumáta þegar að hægt er að tryggja að það sé hægt grafa eftir henni með umhverfisvænni máta.