Rafbílaframleiðandinn Tesla hefur ákveðið að innkalla fjölda bíla af tegundunum Model S og Model X í Bandaríkjunum vegna öryggisvandamála, að því er fram kemur í frétt BBC .

Bandaríska umferðaröryggisstofnunin (NHTSA) sendi Tesla erindi um miðjan síðasta mánuð, hvar rafbílaframleiðandinn var hvattur til þess að innkalla um 158 þúsund bifreiðar vegna hugsanlegra öryggisvandamála.

Sjá einnig: Tesla innkalli bíla vegna öryggisvanda

Öryggisvandinn felst í því að snertiskjárinn í sumum bifreiða ofangreindra tegunda getur bilað eftir nokkurra ára notkun, sem hefur áhrif á öryggisvirkni á borð við móðueyðingu og varamyndavélar. Mun vandamálið vera rakið til þess að minniskubbur snertiskjásins fyllist.

Tesla svaraði ekki erindi NHTSA fyrst um sinn en nú eru leiðbeinandi tölvupóstar farnir að berast frá framleiðandanum til eigenda árgerða 2012 til 2018 af Model S lúxusbifreiðum og árgerða 2016 til 2018 af Model X sportjeppum.

Tesla segist nú að „eigin frumkvæði“ ætla að innkalla bíla sem öryggisvandinn nær til, en ólíkt NHTSA vill Tesla þó meina að ekki þurfi að innkalla þær bifreiðar sem hafi uppfærða örgjörva. Innköllunin mun hefjast í lok mars.