Gengi bréfa bandarískra tæknifyrirtækja hefur lækkað í dag, en mesta lækkunin hefur verið á bréfum Tesla sem ekki var hleypt inn í S&P 500 hlutabréfavísitöluna eins og búist var við.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hefur gengi bréfa Tesla hækkað umtalsvert undanfarna mánuði, en nú hefur gengi bréfa félagsins lækkað skart þrjá daga í röð, og nemur lækkunin þegar þetta er skrifað 16,64%, og er gengi bréfanna komið niður í 349,31 dal.

Hins vegar var tilkynnt um að þrjú ný félög kæmust inn í vísitöluna í mánuðinum, það eru lyfjafyrirtækið Catalent, sem hækkað hefur um 0,70% í dag, netverslunin Etsy, sem hækkað hefur um 1,66% og tæknifyrirtækið Teradyne, sem lækkað hefur um 1,84%, þegar þetta er skrifað, en það síðastnefnda framleiðir prófunarbúnað ýmis konar.

Gengi Apple, Amazon, Microsoft, Facebook og Alphabet, móðurfélags Google, hafa öll lækkað í dag, eða um 4,40%, 3,06%, 3,73%, 3,13% og 2,93% þegar þetta er skrifað. Á sama tíma hefur gengi Bandaríkjadals styrkst gagnvart helstu viðskiptamyntum vegna aukinnar óvissu á heimsmörkuðum.