*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Innlent 5. október 2021 17:24

Tesla með 400 nýskráningar í september

Langflestir Tesla bílar voru nýskráðir í síðasta mánuði vegna komu fyrstu sendingar Model Y sportjepplingsins.

Júlíus Þór Halldórsson
284 Tesla Model Y bílar voru nýskráðir í september. Bíllinn er afar svipaður hinum vinsæla Model 3, en hærri og með opið milli skotts og farþegarýmis.
Aðsend mynd

400 Tesla rafbílar voru nýskráðir hér á landi í síðasta mánuði, yfir tvöfalt fleiri en hjá næstalgengustu tegundinni, Hyundai, en 185 slíkir voru skráðir í mánuðinum. Þetta kemur fram á tölfræðivef Samgöngustofu.

Ástæðan er fyrsta sending sportjepplingsins Model Y, sem talsverð eftirvænting hefur verið eftir. 284 slíkir bílar voru nýskráðir, en 116 af gerðinni Model 3. Fyrir utan að vera fyrsta sending af Model Y koma sendingar Tesla bíla aðeins ársfjórðungslega til landsins, og því eru oftast margar nýskráningar í þeim mánuðum sem þær koma.

Model 3 hefur verið fáanlegur hér á landi frá opnun útibúsins í september 2019, þó að fyrstu slíku bílarnir hafi reyndar ekki verið afhendir fyrr en í mars árið eftir. Alls hafa nú 1.353 Model 3 bílar verið nýskráðir, þar af 1.295 á þessu og síðasta ári.

Tegundirnar tvær vermdu tvö efstu sætin yfir fjölda eftir undirtegund, en í þriðja sæti var Hyundai Tucson með 59 nýskráningar.

Tesla skráningarnar voru ennfremur 56% nýskráðra rafbíla í mánuðinum, sem voru alls 720, auk þess að vera 53% nýskráðra Tesla á árinu. Teslurnar á árinu eru svo aftur ríflega fjórðungur þeirra 2.818 rafbíla sem nýskráðir hafa verið það sem af er ári.

Stikkorð: Tesla rafbílar