Rafbílaframleiðandinn Tesla náði markmiði sínu um að vera farinn að framleiða 5000 Model 3 bíla á viku í lok júní. Elon Musk, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sendi póst á alla starfsmenn þar sem hann sagði „Við náðum því!” og þakkaði „frábæru teymi“ velgengnina, samkvæmt frétt bandaríska miðilsins NPR .

Auk Model 3 bílanna 5000 framleiddi fyrirtækið um 2000 bíla af gerðunum Model S og Model X, og er því heildarframleiðslan orðin um 7000 bílar á viku.

Musk hafði upphaflega lofað því, síðasta sumar, að vera kominn í 5000 Model 3 bíla á viku í desember, en þegar það gekk ekki eftir færði hann markmiðið til loka júnímánaðar.

Tesla hóf innreið sína á bílamarkaðinn með dýrum sport- og lúxusrafbílum sem beint var að mjög litlum hluta markaðarins, en með Model 3 hugðist fyrirtækið höfða til breiðari markhóps og stækka við sig. Sú framtíðarsýn hefur vakið mörgum svo mikla von í brjósti að í fyrra var markaðsvirði Tesla orðið meira en bæði Ford og General Motors, sem eru einhverjir elstu og þekktustu bílaframleiðendur bandaríkjanna.

Framleiðslutöfin olli þó einhverri niðursveiflu, en bréfin hafa síðan hækkað aftur og markaðsvirði Tesla er í dag tæpir 60 milljarðar bandaríkjadala, eða rúmir 6000 milljarðar íslenskra króna, sem er um 2,5-föld landsframleiðsla Íslands eða um 8-föld fjárlög 2018.

Greiningaraðilar vara þó við að það sé eitt að ná 5000 bílum á einni viku, og annað að ná stöðugri framleiðslu yfir þeim fjölda yfir lengri tíma, án þess að það komi niður á gæðum.