Bandarísku bílaframleiðendurnir Tesla og Ford hafa tilkynnt samstarf sem felur í sér að Ford bílar muni frá og með árinu 2024 hafa aðgang að hleðslustöðum Teslu.

Forstjórar fyrirtækjanna tveggja tilkynntu samstarfið í gær og mun það ná til allra Ford eigenda í bæði Bandaríkjunum og Kanada.

„Við viljum ekki að Tesla hleðslustöðvarnar verði eins og einhver lokaður garður. Við viljum að þær verði að einhverju sem styðji við rafvæðingu og hjálpi almennum samgöngum,“ sagði Elon Musk, framkvæmdastjóri Tesla, á Twitter síðu sinni.

Jim Farley, framkvæmdastjóri Ford, fagnar samkomulaginu en hann hefur hrósað Tesla fyrir þann áreiðanleika og fjölda hleðslustöðva sem framleiðandinn býður upp á. Hann segist hafa fyrst tekið eftir því þegar hann og fjölskylda hans voru saman í fríi að keyra um í Kaliforníu.

„Krakkarnir mínir sögðu alltaf í bílnum: Pabbi sjáðu! Þarna er önnur Tesla hleðslustöð! Getum við stoppað þar? En hvað með hér? Ég þurfti alltaf að segja: Nei, því miður. Við þurfum að fara aftan við þessa byggingu hérna,“ segir Jim.

Hleðslustöðvar Tesla í Bandaríkjunum eru rúmlega 17.700 talsins. Rafbílar virka hins vegar á svipaðan hátt og farsímar og notast við mismunandi hleðslutæki. Samningurinn við Ford gefur til kynna að Tesla sé að ná ákveðnum árangri í að sannfæra bílaframleiðendur að notast við hleðslutækni þeirra.