Tesla hefur opnað svokallaða ofurhleðslustöð (e. supercharger) á Akureyri, til viðbótar við stöð á Höfn í Hornafirði sem opnaði í byrjun þessa mánaðar. Er nú hægt að aka öllum Teslum hringinn í kringum landið með því að nota aðeins slíkar stöðvar, sem eru allar komnar í undir 300 kílómetra fjarlægð frá þeirri næstu.

Félagið stefnir ennfremur að opnun stöðva á Hvolsvelli, í miðbæ Reykjavíkur og í Reykjanesbæ. Fyrstu tvær er áætlað að verði opnaðar fyrir árslok, en í Reykjanesbæ er stefnt á annan fjórðung næsta árs.

Ofurhleðslustöðvar rafbílaframleiðandans hér á landi eru flestar af þriðju kynslóð, sem getur veitt allt að 250 kílóvatta hleðslu á hverjum tengli samtímis. Undantekningin er á Egilsstöðum, þar sem aðeins fást 150 kílóvött, og í fossvogi, þar sem hámarkið er 120kW. Þess ber þó að við nýja staðsetningu útibús Tesla hér á landi í Vatnagörðum má finna 250kW stöð.

Stöðvarnar hafa auk þess mismunandi fjölda tengla, frá 2 og upp í 8. Á höfuðborgarsvæðinu eru fjórir í Fossvogi og þrír í Vatnagörðum. Við Staðarskála eru 8 tenglar, á Akureyri eru þeir 4, á Egilsstöðum 2, og aðeins 150kW eins og áður sagði, á Höfn 3, og á Kirkjubæjarklaustri 4.

Austfirðir veikasti hlekkurinn
Lengsta fjarlægð milli Tesla stöðva á hringveginum er nú 266 kílómetrar milli Akureyrar og Egilsstaða, og því austfirðir veikasti hlekkurinn í keðjunni, með lengsta legginn milli stöðva og fæsta tengla og minni hraða á Egilsstöðum.

Þess ber þó að geta að bílar Tesla – sem allir draga yfir 400 kílómetra samkvæmt WLTP staðlinum – geta vitanlega hlaðið á öðrum hraðhleðslustöðvum en frá framleiðandanum sjálfum, sem finna má um allan hringveginn, frá 50kW afli og upp í 350.

Leggurinn milli Akureyrar og Egilsstaða er þó einnig áberandi strjálastur séu þær teknar með inn á hleðslukortið , en rafmagn er af skornum skammti þar með því afli sem til þarf fyrir háhraða hleðslustöðvar. Sem stendur geta aðrar tegundir rafbíla ekki hlaðið í ofurhleðslustöðvum Tesla, en það stendur þó til bóta.