Bandaríski bílaframleiðandinn Tesla ætlar að freista þess að safna 1,5 milljarð Bandaríkjadala til að fjármagna nýjasta bíl sinn, Model 3, með sölu skuldabréfa til fagfjárfesta.

Talsmaður fyrirtækisins segir að nú þegar hafi borist um 518.000 pantanir um bílinn en verðið á honum verður um 35.000 dollarar. Framleiðsla Model 3 hófst í júlí og er markmiðið að framleiða 400.000 bíla á næsta ári.

Mikið hefur verið rætt um það mikla fé sem Tesla, sem einnig framleiðir batterí og sólarrafhlöður, hefur eytt á undanförnum misserum, en fyrirtækið hefur ekki enn skilað hagnaði. Þá hafa greiningaraðilar m.a. spáð því að fyrirtækið muni koma til með að eyða 2 milljörðum Bandaríkjadollara á þessu ári.

Skilmálar skuldabréfanna gera ráð fyrir því að þau verði endurgreidd fjárfestum á átta árum en enn hefur ekki verið ákveðið hverjir vextir þeirra verða.