Bandaríski bílaframleiðandinn Tesla Motors Inc. hefur ekki skilað hagnaði í þrjú ár. Fyrirtækinu tókst þó að hagnast á þriðja ársfjórðungi þessa árs.

Fyrirtækið seldi öðrum bílaframleiðendum útblásturskvóta fyrir ríflega 139 milljónir Bandaríkjadala á fjórðungnum, en Elon Musk, forstjóri og stofnandi bílaframleiðandans, telur félagið einnig geta skilað afgangi á seinasta árshluta þessa árs.

Fjárfestar hafa haft áhyggjur af framleiðslugetu félagsins og talið að fjárþörf gæti aukist til muna til þess að standa straum af framleiðslu Model 3 bílanna. Elon Musk segir fyrirtækið aftur á móti ekki þurfa á fjármögnun að halda.

Fjórðungurinn hefur þó ekki verið dans á rósum fyrir félagið. Fyrirtækið fékk slæma umfjöllun eftir röð bílslysa hjá viðskiptavinum sem notuðu hina svokölluðu sjálfstýringu. Einnig jókst svartsýni aðila á markaði þegar Tesla lýsti yfir hugmyndum um yfirtöku á SolarCity.

Sjóðir félagsins standa í rúmum 3,08 milljörðum dala og hafa lækkað úr 3,25 milljörðum frá öðrum ársfjórðungi þessa árs. Nettó hagnaður félagsins nam 21,9 milljónum Bandaríkjadala, sem jafngildir um 14 centum á hlut. Félagið skilaði síðast hagnaði á fyrsta ársfjórðungi 2013.

Heildar tekjur félagsins námu 2,30 milljörðum dala og hækkuðu bréfin í kjölfar afkomunnar um rúmlega 4% í viðskiptum dagsins.