*

föstudagur, 18. október 2019
Erlent 21. apríl 2019 18:08

Tesla stefnir meintum misyndismanni

Fyrirtækið fer fram á nálgunarbann gegn skortsala fyrir að áreita starfsfólk og sitja um verksmiðju þess.

Ritstjórn
Elon Musk, stofnandi og forstjóri rafbílaframleiðandans Tesla, hefur átt í töluverðum útistöðum við skortsala síðustu misseri.
epa

Rafbílaframleiðandinn Tesla hefur stefnt manni – sem félagið vill meina að sé meðlimur í hópi skortsala sem veðjað hafa á að hlutabréf þess muni lækka – fyrir að sitja um verksmiðju þess og áreita starfsfólk þess. Bloomberg greinir frá.

Meðal þess sem Randeep Hothi á að hafa gert er að sveigja bíl sínum hættulega nálægt Tesla Model 3 bíl á vegum fyrirtækisins sem var í tilraunaakstri, og slasa öryggisvörð með því að aka á hann og flýja svo af vettvangi. Tesla segist hafa náð númeraplötu Hothi og þannig komist að því hver hann væri.

Ásakanirnar koma fram í dómsskjölum sem fylgja stefnunni, þar sem farið er fram á nálgunarbann á hendur Hothi, en fyrirtækið hefur nú þegar fengið slíkt bann tímabundið. Hegðun Hothi er í stefnunni sögð líkleg til að valda „miklum og óbætanlegum skaða“ ef ekki komi til tafarlauss inngrips yfirvalda.

Söfnun sem sett var á fót fyrir lögfræðikostnaði Hothi náði takmarki sínu upp á 20 þúsund dollara, um 2,4 milljónir króna, á innan við klukkutíma.

Stikkorð: Tesla Elon Musk