Rafbílaframleiðandinn Tesla tapaði 154 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi. Fjárhæðin jafngildir rúmum 20 milljörðum íslenskra króna. BBC News greinir frá uppgjöri fyrirtækisins.

Fyrirtækið framleiddi 11.600 rafbíla á tímabili og námu sölutekjur þess 893 milljónum dala sem er 52% aukning milli ára.

Við kynningu uppgjörsins greindi Tesla frá því að það hygðist auka við framleiðsluna um 12% á næsta ársfjórðungi og framleiða 12.500 bifreiðar á tímabilinu, en varaði hins vegar við því að sterkur Bandaríkjadalur gæti bitnað á afkomunni. Hyggst fyrirtækið hækka verð um 5% á Evrópumarkaði til að stemma stigu við fyrirséðu tapi.

Töluverðar sveiflur urðu á gengi hlutabréfa í fyrirtækinu eftir kynningu uppgjörsins og hækkaði það mest um 5% áður en það lækkaði aftur.