Tesla motors tilkynnti um tap annan ársfjórðunginn í röð í gær, en þá tapaði félagið 293,2 milljónum Bandaríkjadala. Fyrirtækið sem framleiðir rafmagnsbíla tapaði því mun meira en markaðir höfðu búist við.

Tekjur fyrirtækisins jukust um 33% frá því árið á undan í 1,27 milljarð dala, en kostnaður af starfsemi fyrirtækisins jukust um 34% í 512,8 milljón dali.

Jeppaframleiðsla í vandræðum

Á símafundi forstjórans Elon Musk við greinendur sagði hann að fyrirtækið væri komið yfir vandamál samfara framleiðslu á Model X jeppanum. „Mér finnst við vera komin á góðan stað á þessum tímapunkti,“ sagði Musk.

Fyrirtækið tókst ekki að koma jafnmörgum bílum á markað eins og væntingar höfðu verið um á síðustu mánuðum, en kenndi Musk um skorti á bílapörtum og „hroka við að bæta við of mikið af nýrri tækni“ við jeppann.

„Í grunninn vorum við í framleiðsluhelvíti fyrstu sex mánuði ársins. Nú er framleiðslan hins vegar komin vel á skrið. Hún er orðin stöðu á bæði S og X módelunum,“ sagði Musk.

Rafmagnsfólkbíll sem kostar 4,2 milljónir króna

Aðalframleiðsluvara fyrirtækisins er Model S bíllinn, en á næstunni stefnir fyrirtækið að því að setja á markað Model 3 fólksbílinn.

Sagði Musk að bíllinn, sem er reiknað með að kosti 35.000 dali eða rúmlega 4,2 milljóir króna, og komi á markað seint á næsta ári væri „okkar meginmarkmið.“

Markaðir bjuggust við minna tapi

Tap fyrirtækisins á ársfjórðungnum jafngildir 2,09 dölum á hlut en fyrir ári síðan nam tapið 1,45 dölum á hlut, ef miðað er við GAAP reikningsskilavenjur.

Ef reiknað er samkvæmt öðrum stöðlum sem taka tillit til fleiri þátta eins og hlutabréfakauprétti hluthafa, þá jafngildir tapið á ársfjórðungnum 1,06 dölum á hlut, samanborið við 48 sent ári fyrr.

Markaðir höfðu búist við að tapið eftir þessum staðli myndi nema 59 sentum á hlut. Niðurstöðurnar voru birtar eftir að markaðir lokuðu í gær, en áður hafði verð á hlut lækkað um 1,41 dali eða 0,6% niður 225,79 á hlut. Hlutabréf fyrirtækisins hafa haldið áfram að lækka í dag.

Hlutafjárútboð bætti fjárhagsstöðu um 1,7 milljarða dala

Framleiddi fyrirtækið metfjölda bíla, 18.345 á öðrum ársfjórðungi og náði framleiðslan undir lok hans að vera um það bil 2.000 bílar á viku. Stefnir fyrirtækið á að framleiða um 50.000 bíla á seinni hluta ársins.

Fyrirtækið hefur þurft að greiða gríðarlegar fjárhæðir í að byggja upp framleiðslugetu sína og til að byggja upp risarafhlöðuverksmiðju í Nevada.

Þó hefur fyrirtækið aukið fé í sjóðum upp í 3,25 milljarða dali eins og staðan var 30. júní síðastliðinn, úr því að vera 1,2 milljarður sex mánuðum fyrr. Er það að mestu tilkomið út af hlutafjáraukningu sem nam 1,7 milljörðum dala í maí.