Hlutabréf bandaríska rafbílaframleiðandans Tesla hafa rokið upp annan daginn í röð eftir opnun fjármálamarkaða þar í landi. Markaðsvirði félagsins er nú næsthæst allra bílaframleiðenda heimsins á eftir Toyota.

Bréfin hafa hæst farið í 921 dali á hlut, sem gerir 18% hækkun í dag, yfir 40% hækkun í vikunni, og yfir tvöföldun frá áramótum. Sé horft aftur til miðs síðasta árs – þegar bréfin náðu margra ára lágmarki – hafa þau yfir fimmfaldast í verði. Heildarmarkaðsvirði félagsins nemur nú um 160 milljörðum dala, ígildi um 20 þúsund milljarða króna.

Fyrirtækið skilaði nokkuð jákvæðu ársfjórðungsuppgjöri um daginn, og verðhækkanir bréfanna frá áramótum hafa komið illa niður á skortsölum sem veðjað hafa á verðfall þeirra. Samanlagt töpuðu þeir 5,8 milljörðum dala – yfir 700 milljörðum króna – í síðasta mánuði, og hafa tapað öðru eins það sem af er þessum.