*

þriðjudagur, 27. október 2020
Erlent 27. september 2020 15:04

Tesla teygir verðlistann í báða enda

Elon Musk boðaði 20 milljón króna ofurbíl ásamt ódýrari bíl á um 3.5 milljónir innan nokkurra ára á þriðjudag.

Júlíus Þór Halldórsson
Elon Musk, forstjóri og stofnandi Tesla, kynnti eitt og annað á árlegum rafhlöðudegi félagsins síðastliðinn þriðjudag.
epa

Auk þess að kynna allskyns nýjungar í rafhlöðutækni kynnti Elon Musk nýja útgáfu Model S fólksbílsins á rafhlöðudeginum á þriðjudag. Sú ber nafnið Model S Plaid, verðmiðann 140 þúsund dali (um 20 milljónir króna), og státar af 840 kílómetra drægni, auk þess að ná 100 kílómetra hraða á undir 2 sekúndum.

Á hinum enda verðlistans boðaði Musk í krafti ódýrari rafhlaðna 25 þúsund dala bíl, sem samsvarar um 3,5 milljónum íslenskra króna og er um þriðjungi ódýrari en ódýrasta Teslan í dag, sem er á yfir 5 milljónir. Þess má þó geta að Musk kynnti 25 þúsund dala bíl sem markmið fyrst árið 2018, og sagði þá að það ætti að geta náðst innan þriggja ára.

Bréfin féllu í kjölfar rafhlöðudagsins
Musk sagðist enn fremur stefna á að árleg framleiðsla næði með tíð og tíma 20 milljónum bíla, án þess þó að gefa upp sérstakan tímaramma fyrir það markmið. Stærsti bílaframleiðandi heims í dag, Volkswagen-samsteypan, framleiðir um 10 milljónir árlega. Tesla seldi um 368 þúsund bíla í fyrra.

Þá vekur athygli að þótt komið hafi verið inn á betri endingu, bólaði ekkert á milljón-mílu rafhlöðunni sem hávær orðrómur hafði verið um að hún yrði kynnt, en eins og nafnið gefur til kynna ætti slík rafhlaða að geta enst nógu lengi til að keyra milljón mílur.

Þrátt fyrir nokkuð stór tíðindi og stórhuga markmið Musk á þriðjudag virðast fjárfestar hafa orðið fyrir vonbrigðum. Hlutabréf Tesla féllu skarpt við opnun markaða á miðvikudag, og eru þegar þetta er skrifað 10% lægri en við lokun á þriðjudag.

Tesla hóf árið í 86 dölum á hlut að teknu tilliti til útgáfu jöfnunarhlutabréfa nú fyrir stuttu, og hafði tæplega sexfaldast í verði þegar mest lét í lok síðasta mánaðar, en er nú um 4,5-falt hærra en um áramótin.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Tesla Elon Musk