*

laugardagur, 16. janúar 2021
Erlent 4. janúar 2021 13:58

Tesla vantaði 450 bíla upp á markmiðið

Rafbílaframleiðandinn afhenti rétt tæpa hálfa milljón bíla á síðasta ári, þrátt fyrir framleiðslutöf vegna faraldursins.

Ritstjórn
Elon Musk forstjóri Tesla setti fyrirtækinu markmið um að afhenda hálfa milljón bíla á árinu sem var að líða. Það náðist ekki, en munaði ansi litlu.
epa

Tesla afhenti 499.550 bíla í fyrra og vantaði því 450 bíla upp á að ná markmiðinu sem lagt hafði verið upp af framkvæmdastjóranum Elon Musk.

Rafbílaframleiðandinn tók þó fram að tölurnar væru til bráðabirgða og yrðu uppfærðar, svo hugsanlegt er að markmiðið um hálfa milljón bíla hafi náðst eftir allt, en það kemur í ljós þegar ársreikningur síðasta árs verður birtur í lok þessa mánaðar.

Þótt fjöldinn sé ekki mikill í samanburði við stærstu bílaframleiðendur heims – sem selja yfir 10 milljón bíla á ári – er hann yfir tvöfaldur á við fjölda afhentra rafbíla hjá nokkrum öðrum framleiðanda.

Í umfjöllun The Verge um málið er niðurstaðan einnig sögð merkileg fyrir þær sakir að ráðstafanir vegna heimsfaraldursins á fyrri hluta þessa árs höfðu talsverð áhrif á framleiðslu félagsins, eins og sagt var frá.

Í samræmi við það skiptast tölurnar nokkuð ójafnt yfir árið. Tæpir 180 þúsund bílar voru afhentir á fyrri árshelmingi, og því um 320 þúsund á þeim seinni, sem er hátt í tvöföldun.

Stikkorð: Tesla