*

fimmtudagur, 20. febrúar 2020
Erlent 2. maí 2019 19:04

Tesla vantar hátt í 300 milljarða

Rafbílaframleiðandinn hyggst sækja sér fjármagn með útgáfu hluta- og skuldabréfa til að tryggja lausafjárstöðuna.

Ritstjórn
Elon Musk, forstjóri og stofnandi Tesla, segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við skráða hlutafjármarkaði.
epa

Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla, hyggst sækja allt að 2,3 milljarða dala fjármögnun – ígildi um 283 milljarða króna – með útgáfu hlutabréfa og umbreytanlegra skuldabréfa.

Féð verður að sögn notað í almennan rekstur og til að styrkja efnahagsreikning félagsins, en í síðustu viku var sagt frá því að sjóðstreymi þess hefði verið neikvætt um 1,5 milljarða dala á fyrsta ársfjórðungi ársins.

Musk lýsti því yfir á síðasta ári að félagið væri orðið fjárhagslega sjálfbært og myndi ekki þurfa frekari fjármögnun, þrátt fyrir stórhuga áætlanir um þróun nýrra bíla. Það gekk eftir á seinni helmingi síðasta árs, en um áramótin fór fyrirtækið að blæða lausafé á ný.

Rafbílaframleiðandinn hefur átt nokkuð erfitt uppdráttar nýverið. Financial Times segir trú fjárfesta á félaginu fara dvínandi, og hlutabréf þess hafa lækkað um 30% frá áramótum.

Stikkorð: Tesla Elon Musk