Tesla tilkynnti í gær afkomutölur sínar fyrir síðasta ársfjórðung 2022. Hagnaðurinn á fjórðungnum nam 3,7 milljörðum Bandaríkjadala, um 530 milljörðum króna. Wall Street gerði ráð fyrir 3,8 milljarða dala hagnaði.

Salan var 24,3 milljarðar dala á fjórðungnum, lítillega undir áætlunum greiningaraðila sem gerðu ráð fyrir 24,7 milljarða dala sölu.

Félagið hagnaðist um 12,6 milljarða dala, um 1.822 milljarða króna, allt árið 2022 samanborið við 5,5 milljarða hagnað 2021.

Hlutabréf Teslu hækkuðu 5% í framvirkum viðskiptum eftir lokun markaða í gærkvöldi.

Áætla 37% aukningu 2023

Tesla gerir ráð fyrir að selja 1,8 milljónir bíla á þessu ári sem væri 37% aukning frá árinu 2022 þegar framleiðandinn seldi 1,3 milljón bíla.

Zach Kirkhorn sagði í gærkvöldi þegar uppgjörið var tilkynnt, að verðlækkanir hefðu vitanlega áhrif á hagnað félagsins en hann ætti þó að vera heilbrigður á þessu ári.

Óvissa framundan

Hlutabréf Tesla lækkuðu um 65% í fyrra. Hægt er að týna til margar ástæður fyrir því.

Sú sem nú veldur mestri óvissu í rekstri félagsins eru snarpar vaxtahækkanir um allan heim og áhrif þeirra á kaupgleði þeirra sem eru í kauphugleiðingum á bílum. Samkeppni hefur einnig aukist og vörumerkið er ekki með sömu yfirburði og áður.

Elon Musk sagði í gærkvöldi að verðlækkunin hafi haft mikil áhrif á eftirspurnina. Helstu sölubílar Tesla lækkuðu um 20% fyrr í mánuðinum. Musk sagði að pantanir væri nú tvöfalt meiri en framleiðslugetan.

Hér má sjá frétt Wall Street Journal sem fer yfir árið 2022, ástæður lækkunar hlutabréfaverðs Tesla og viðtal við Elon Musk.