*

miðvikudagur, 21. apríl 2021
Innlent 26. febrúar 2021 20:15

„Þetta er algjör draumur“

Davíð Helgason segist aldrei hafa átt von á að Unity yrði jafn verðmætt og félagið hefur orðið.

Ritstjórn
Davíð Helgason.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Þetta er algjör draumur,“ segir Davíð Helgason, stofnandi og fyrrverandi forstjóri Unity, um skráningu Unity á markað á síðasta ári í fyrsta þætti af nýju hlaðvarpi Sesselju Vilhjálmsdóttur, Athafnafólk.

Davíð hélt gott partý heima hjá sér í Kaupmannahöfn við skráninguna, en í raun hafi skráningin litlu breytt í hans lífi. Davíð hjóli enn með börnin í skólann í Kaupmannahöfn. Skráningin sé fyrst og fremst verkfæri, sem geti til að mynda hjálpað við kaup á fyrirtækjum og laða til sín gott fólk að hafa fyrirtækið skráð á markað. 

Í viðtalinu fer Davíð yfir sögu Unity frá stofnun félagsins í Kaupmannahöfn árið 2004 og fram til dagsins í dag. Davíð situr í dag í stjórn Unity en hefur fyrst og fremst einbeitt sér að fjárfestingu í sprotafyrirtækjum undanfarin ár.

Davíð stýrði Unity fyrsta áratuginn en Bandaríkjamaðurinn John Riccitiello tók við sem forstjóri árið 2014 sem Davíð segir hafi verið hárrétt ákvörðun. Þá störfuðu um 500 manns starfað hjá Unity en í dag eru starfsmenn félagsins um 4.500. Þó það hafi stundum verið skrýtið að sleppa stjórnartaumunum hafi verið nauðsynlegt hafi verið að fá einhvern í starfið sem hafi reynslu af því að stýra svo stóru félagi. 

Átti alls ekki von á vexti Unity

Þá segist Davíð aldrei hafa átt von á því að Unity myndi vaxa jafn mikið og raun ber vitni. Nokkrum árum eftir stofnun Unity var einn keppinautur félagsins keyptur á um 15 milljónir dollara, sem eru nærri tveir milljarðar króna. Davíð tók sem merki um að Unity yrði sennilega aldrei mjög verðmætt.  

Unity er sem stendur metið á um 28 milljarða dollara, um 3.600 milljarða króna, og er líklega verðmætasta félag sem stofnað hefur verið af Íslendingi. 4% hlutur Davíðs í félaginu er metinn yfir 140 milljarða króna. 

Davíð vinnur einnig að því með bróður sínum Ara Helgasyni, sem Davíð segir að sé einn fremsti fjárfestir á sínu sviði í Evrópu, að því að koma á fót fjárfestingafélagi, til að formfesta betur fjárfestingar sínar. Þar eigi meðal annars að leggja áherslu á fjárfestinga sem nýst geti í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Í fjárfestingum í sprotafyrirtækjum reynir Davíð að velja fyrirtæki þar sem klárt og skemmtilegt fólk sé við stjórnartaumana og að leysa mikilvæg vandamál. Hann reyni að leggja sitt lóð á vogarskálarnar með því að deila sinni þekkingu og nýta sitt tengslanet til að hjálpa þeim.

Hlusta má á þáttinn í heild sinni hér: