„Ég er búinn að hugsa mikið,“ segir Jón Stephenson von Tetzchner aðspurður hvað hann hafi verið að gera síðan að hann hætti afskiptum af Opera. Hann segir ákvörðunina um að hætta hafa verið rétta, þó svo að um hafi verið að ræða mikla breytingu fyrir hann og aðra starfsmenn fyrirtækisins.

Þeir Jón, Guðjón Már Guðjónsson og Magnús Ragnarsson hjá OZ, ræddu meðal annars áhugann á að endurvekja nafnið OZ og aðkomu Jóns að fyrirtækinu í viðtali sem birtist í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn.

Vonar að hann geti verið betri fjárfestir

„ Í langan tíma höfum við verið með fjárfesta í Opera sem vilja selja. Þeir vilja láta skammtímaáætlun ganga fyrir og heldur undirbúa fyrirtækið fyrir sölu en að byggja það upp,“ segir Jón um ástæður þess að hann ákvað að hætta hjá félaginu sem hann stofnaði og hefur byggt upp í 17 ár.

„Maður getur verið misjafnlega heppinn með fjárfesta. En ég vona að ég geti verið betri fjárfestir hérna en kannski sumir af þeim sem ég hef haft,“ segir Jón sem segist hafa gaman af því að vinna með góðu fólki sem vill byggja upp fyrirtæki. Hann segir þolinmæði mikilvæga, þróun nýrrar tækni geti tekið tíma og tekur sem dæmi að Opera hafi byrjað að gera vafra fyrir farsíma árið
1999 þegar fólk hafði enga trú á því sem fyrirtækið var að gera. Nú eru hátt í 200 milljónir notenda Opera á farsímum eingöngu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.