Lyfjafyrirtækið Teva hefur greint frá því að það muni kaupa samheitalyfjastarfsemi Allergan, sem er móðurfélag Actavis á Íslandi, fyrir 40,5 milljarða dali. Fjárhæðin jafngildir tæpum 5.500 milljörðum íslenskra króna. Wall Street Journal greinir frá kaupunum.

Kaupin styrkja stöðu Teva á markaði en fyrirtækið er eitt stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims og hefur höfuðstöðvar í Ísrael. Af kaupverðinu verða 33,75 milljarðar dala greiddir með reiðufé en 6,75 milljarðar dala verða veittir með 10% eignarhlut í Teva. Vegna kaupanna mun Teva nú hætta tilraunum sínum til að taka yfir keppinaut sinn Mylan.

Sigurður Ólafsson er framkvæmdastjóri samheitalyfjasviðs Teva, en hann var forstjóri Actavis þangað til á síðasta ári.