Ísraelska samheitalyfjafyrirtækið Teva Pharmaceutical Industries íhugar nú söluna á Medis - félags sem er með starfsstöðvar á Íslandi - til þess að grynnka á skuldum Teva að því er kemur fram í frétt Reuters um málið. Alls starfa hundrað manns hjá Medis og þar af 85 manns hér á Íslandi.

Félagið Teva hefur verið í miklum lækkunarfasa í kjölfar þess að félagið birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung . Félagiuð skilaði 6 milljarða Bandaríkjadala tapi á ársfjórðungnum, samanborið við 254 milljón Bandaríkjadala hagnað árið áður. Teva eignaðist Medis þegar það tók yfir Actavis fyrir ári síðan. Teva er stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims og er skráð í Kauphöllina í New York sem og í Kauphöllinni í Tel Aviv.

Í svari til Reuters staðfesta Teva að félagið sé að leita af nýjum eigendum fyrir Medis. Bloomberg News segja frá því að virði Medis sé á bilinu 500 til 1.000 milljón Bandaríkjadala eða því sem samsvarar 53 til 106 milljörðum króna.

Valur Ragnarsson er forstjóri Medis en nýlega kom fram að hann væri tekjuhæsti Íslendingurinn samkvæmt því sem kemur fram í tekjublaði Frjálsrar verslunar með 24,5 milljónir króna í laun á mánuði.

50 prósentustiga lækkun

Skuldir Teva eru orðnar íþyngjandi, en þær nema nú um 32 milljörðum Bandaríkjadala, stór hluti af þeim tengist kaupum Teva á Actavis, eða Allegran eins og félagið heitir í dag á 40,5 milljarða Bandaríkjadollara. Einnig var lánshæfismat félagsins lækkað í kjölfar uppgjörsins á öðrum ársfjórðungi. Félagið sem er skráð á markað í Kauphöllinni í New York hefur rýrnað talsvert í verði. Gengi bréfa Teva hefur fallið um nærri 50 prósentustig frá uppgjörinu eða um 95 prósentustig frá ársbyrjun 2016.

Nýlega var greint frá því að Teva hygðist segja upp 7.000 starfsmönnum og loka eða selja allt að fimmtán verksmiðjur á næstu tveimur árum, sem hluta af umfangsmiklum hagræðingaraðgerðum.

Íslendingurinn, Sigurður Óli Ólafsson , var áður forstjóri samheitasviðs Teva frá árinu 2014, en hann lét af störfum hjá félaginu í desember í fyrra.