Ég hef orðið vitni að mikilli grósku í nýsköpun á undanförnum árum, hvort sem það er innan háskólanna, í upplýsingatækni eða sjávarútveginum. Það eru gífurlega margar flottar hugmyndir að koma frá bæði Íslendingum og erlendum aðilum sem hafa sest hérna að. Von mín er að með Kríu verði fjármögnunarumhverfið fyrir sprota betra og gerir þannig íslensku hugviti og sprotafyrirtækjum mun auðveldara fyrir að komast á laggirnar og vaxa,“ segir Sæmundur K. Finnbogason.

Hann var nýlega ráðinn til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og mun þar starfa sem sjóðstjóri Kríu, nýs sprota- og nýsköpunarsjóðs í eigu ríkisins. Kría, sem fær 8 milljörðum króna úthlutað á næstu fimm árum samkvæmt fjármálaáætlun, verður svokallaður sjóðasjóður, þ.e. hann fjárfestir ekki beint í sprotafyrirtækjum heldur í sérhæfðum fjárfestingasjóðum sem hafa sérþekkingu á þessu sviði. Með þessu sniði eflir Kría fjárfestingaumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi. Sæmundur segir að mikil vinna standi nú yfir að koma Kríu af stað og að opnað verði fyrir umsóknir í haust.

Síðastliðin sjö ár starfaði hann sem forstöðumaður viðskiptaþróunar og almannatengsla hjá Sendiráði Kanada. „Starfið fólst í að efla tvíhliða viðskipti á milli Kanada og Íslands og þá með þeirri áherslu að kynna tækifæri á Íslandi fyrir kanadískum fyrirtækjum og öfugt. Þó að fiskurinn og fiskafurðir séu stærsti hluti viðskipta á milli landanna tveggja, þá vann ég einnig með sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og aðstoðaði þau við að finna tækifæri erlendis,“ segir hann og bætir við að íslensk tæknifyrirtæki horfi mörg til Kanada sem miðstöðvar fyrir Norður-Ameríku markað.

Sæmundur bjó sjálfur í Houston í Texas fylki frá átta ára aldri til sautján ára aldurs. Upphaflega stóð til að fjölskyldan yrði úti í þrjú ár, á meðan faðir hans lauk læknisfræðinámi, en dvölin ílengdist. Sæmundur heldur ennþá góðum tengslum við vini sína frá þessum árum en þeir reyna að hittast á nokkurra ára fresti, nú síðast í New York.

Hann er giftur Kristínu Helgu Birgisdóttur, doktor í hagfræði og verkefnastjóra greininga og mælinga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þau eiga tvær dætur, Kolbrúnu Völu sem er þriggja ára og Kötlu Margréti sem er sex ára. Fjölskyldan ferðaðist í sumar með nýjan tjaldvagn, meðal annars í Þórsmörk og til Akureyrar. Sæmundur segir að þau hjónin séu mikil náttúrubörn og fari mikið á fjöll. Sjálfur er hann í fjallahjólreiðum og finnst auk þess yndislegt að komast í stangveiði.

Nánar er rætt við Sæmund í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .