Stjórn Teymis hf. [ TEYMI ] hefur ákveðið að mæla með því við hluthafa, að félagið verði skráð úr kauphöllinni OMX Nordic Exhange á Íslandi. Tillaga þess efnis verður borin undir atkvæði á hluthafafundi, sem haldinn verður innan skamms, segir í fréttatilkynningu.

Tæplega 80% hluthafa hafa þegar ákveðið að eiga hluti sína í Teymi áfram að afskráningu lokinni.

Öllum hluthöfum stendur til boða að eiga hluti sína áfram en kjósi þeir að selja hluti sína í Teymi býðst félagið til að kaupa þá og greiða fyrir með hlutum í Alfesca.  Alfesca er skráð í kauphöll og er eitt fárra skráðra félaga á Íslandi sem hafa staðið af sér þær miklu lækkanir sem einkennt hafa markaðinn á þessu ári. Með aðgerðunum er tryggt að hluthafar geti áfram átt bréf í skráðu rekstrarfélagi og komið þeim í verð á markaði kjósi þeir svo.

Hluthöfum stendur til boða að selja hluti sína í Teymi á genginu 1,90 fyrir hvern hlut, sem er 25% hærra en lokagengi miðvikudaginn 30.júlí 2008. Gengi hvers hlutar í Alfesca hf. verður 6,96 sem var lokagengi hinn 30. júlí 2008. Skiptihlutfall er því 0,273.

Ráðgert er að afskráningarferlið taki um 6 til 8 vikur.

„Það er okkar mat að skráning við núverandi aðstæður þjóni ekki hagsmunum hluthafa. Afskráning félagsins gefur okkur aukið svigrúm til að hlúa betur að rekstrinum og draga úr kostnaði og umsýslu vegna skráningar,“ segir Árni Pétur Jónsson, forstjóri Teymis.