Samkvæmt fréttum hafa Hermann Jónasson og Jóhann Óli Guðmundsson ráðist í lögleysu inn í fjarskiptafyrirtækið Tal og borið þaðan út forstjóra félagsins. Aðgerðirnar hafa þeir reynt að réttlæta með vísan í úrskurð Fjármálaráðuneytis.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Teymi í dag.

Í yfirlýsingunni segir að sá úrskurður lúti hins vegar ekki að lögmæti brottvikningar Hermanns úr starfi forstjóra í desember sl. eða ráðningar nýs forstjóra í kjölfarið heldur formreglum hlutafélagalaga.

„Ráðuneytið er sammála Teymi um, að deilur sem þessar beri að útkljá fyrir dómstólum,“ segir í yfirlýsingunni.

„Teymi  hefur kappkostað að halda hinu öfluga starfsfólki Tals fyrir utan hluthafadeilurnar og harmar, að Hermann Jónasson og Jóhann Óli Guðmundsson skuli svífast einskis til að tryggja Hermanni starf hjá félaginu í óþökk meirihlutaeiganda. Með því hafa þeir skapað óþolandi vinnuaðstæður fyrir heiðarlegt og duglegt starfsfólk Tals og brotið gróflega á Ragnhildi Ágústsdóttur, sem þeir hafa ítrekað reynt að hrekja úr starfi forstjóra Tals á undanförnum vikum, jafnvel þótt hún sem barnshafandi njóti lagaverndar gegn uppsögn.“

Þá segist félagið líta svo að allar ákvarðanir sem Hermann Jónasson tekur sem „sjálfskipaður forstjóri Tals séu ólögmætar þar dómstóll hefur úrskurðað í málinu,“ eins og það er orðað í yfirlýsingunni.

Teymi er eigandi 51% hlutafjár í Tali og á kauprétt á hlutum Jóhanns Óla og Hermanns í september nk.