Eignarhaldsfélagið Teymi hf.  hefur keypt 51% hlut í fjarskiptafélaginu Hive samkvæmt samningi sem stjórnir félaganna hafa samþykkt.  Samhliða eigandaskiptunum verður rekstur farsímafélagsins SKO sameinaður rekstri Hive og þannig myndað öflugt félag, sem býður einstaklingum og fyrirtækjum heildarlausnir í fjarskiptum.  Forstjóri félagsins verður Hermann Jónasson, núverandi forstjóri Hive.

SKO hefur frá stofnun lagt áherslu á að bjóða neytendum GSM grunnþjónustu á lágu verði og náð góðum árangri.  Með lítilli yfirbyggingu og hagkvæmu rekstrarfyrirkomulagi hefur  SKO getað boðið grunnþjónustu á hagstæðu verði og höfðað sérstaklega til ungs fólks. Hive hefur á sama tíma  lagt megináherslu á netþjónustu á góðu verði en hóf nýlega að bjóða IP símalausnir fyrir heimili, sem hefur notið mikilla vinsælda.   Félögin falla því vel hvort að öðru og eru mun sterkari sameinuð en í sitt hvoru lagi.

Ætlun sameinaðs félags er að sækja áfram inn á lággjaldamarkaðinn og bjóða neytendum heildarlausnir í fjarskiptum á hagstæðu verði.  Áhersla verður lögð á sjálfstæði félagsins og því er ætlað að veita öðrum fjarskiptafyrirtækjum harða samkeppni.  Sameinað félag mun leggja áherslu á einfalt vöruframboð og gegnsæja verðlagningu, sem ætlað er að skila lægra verði til neytenda.

Hermann Jónasson segir sameininguna mikilvæga fyrir bæði félögin og íslenska símnotendur.  „Sameining er eðlilegt framhald af starfi félaganna á undanförnum árum.  Hive hefur lengi haft áhuga á að bjóða sínum viðskiptavinum GSM þjónustu á góðum kjörum en ekki haft tækifæri til þess fyrr en nú.  Mikil tækifæri felast í sameiningunni fyrir félagið og við ætlum okkur stóra hluti.”

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Teymis, tekur í sama streng.  „Þessi kaup Teymis á ráðandi hlut í Hive er í samræmi við þá stefnu félagsins, að fjárfesta í íslenskum fjarskipta- og upplýsingatæknifyrirtækjum.  Með stofnun Sko fyrir tæpum tveimur árum var mörkuð sú stefna að eiga félag sem starfaði á lággjaldahluta fjarskiptamarkaðarinns. Kaup Teymis á meirihluta í sameinuðu félagi Hive og SKO staðfestir þann vilja okkar að styrkja okkur enn frekar á þeim markaði.“

Sko var stofnað 1. apríl 2006.  Í fyrstu bauð félagið eingöngu upp á GSM þjónustu en tók síðar við rekstri netþjónustunnar BTnet. Hugmyndafræði SKO gengur út á að að vera lítil en hugsa stórt. Fjárfrekir útgjaldaliðir hafa verið skornir niður auk þess sem yfirbyggingin er lítil sem engin. Þannig tekst að bjóða lægra verð en aðrir á markaðnum, en félagið kaupir alla tækniþjónustu af Vodafone.

Hive er þriðja stærsta fjarskiptafyrirtækið á markaðnum og fer ört vaxandi; Hive hefur náð um 20% markaðshlutdeild í internetþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Frá upphafi, eða frá því í nóvember 2004, Hive hefur verið leiðandi í háhraða internetþjónustu og síðar boðið símaþjónustu á mun lægra verði en áður hefur þekkst, og þannig brotið upp verðmúra á markaðnum..