Teymi umbreytti 17,5 milljarða króna erlendu láni í íslenska óverðtryggða mynt í kjölfar þess að krónan veiktist mikið á fyrsta fjórðungi ársins. Meiri hluti skuldanna er því komið í íslenska mynt, þvert á stefnu félagsins. Þetta var gert þegar gengisvísitalan krónu var 144 -145 stig.

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Teymis, sagði að þetta hafi verið gert í því að skyni að komast í skjól fyrir frekari veikingu krónu og hremmingar þeim tengdum.

„Félagið var ekki reiðubúið að standa frammi fyrir því að vísitalan færi í 170-180 stig, eins og – akkúrat á þessum tímapunkti – leit út fyrir að yrði,” sagði Ólafur Þór á afkomufundi félagsins í morgun.

Í lánasamningum Teymis er myntbreytiheimild og eru stjórnendur félagsins að fara yfir það, hvenær hægt er að stökkva aftur í lán í erlendri mynt.

„Ekki boðlegt fyrir fyrirtæki að skulda í íslenskum krónum"

„Núverandi lánasamsetning er ekki viðunnandi fyrir okkur, þrátt fyrir það að við höfum nánast allar tekjur okkar í íslenskum krónum, þá er ástandið þannig að það er ekki boðlegt fyrir fyrirtæki að skulda í íslenskum krónum,” sagði Árni Pétur Jónsson, forstjóri Teymis.

„Við viljum bíða og sjá til, hvernig ástandið verður og mun þróast, áður en við förum aftur til baka. En stefnan er að meirihluti lána verði í erlendri mynt eins og áður. Í því skyni að tryggja sjóðsstreymi félagsins, þrátt fyrir að það sé einhver áhætta fólgin í því,” sagði Ólafur Þór.

Hagnaðist um 2,6 milljarða króna árið 2007 á erlendum lánum Á síðasta ári hagnaðist Teymi um 2,6 milljarða króna á því að skulda í erlendri mynt um. Þá er bæði horft til gengishagnaðar og vaxtamunar.

Á fyrsta fjórðungi þessa árs, hefur félagið tapað um það bil 4,6-  4,7 milljarða króna á því að skulda í erlendri mynt.

Litið rúmt ár til baka, nemur reiknað tjón félagsins rúmum tveimur milljörðum króna á vegna gengishreyfinga krónu.