Teymi [ TEYMI ] uppfærði farsímakerfi Vodafone um fimm milljarða króna í bókum sínum á fyrsta fjórðungi ársins. Verðmæti farsímakerfisins í bókunum fer í sjö milljarða króna úr tveimur milljörðum króna.

Þessi hækkun var gerð í gegnum eigið fé félagsins og stuðlar að því að eigin fé félagsins er 19% við lok fjórðungsins.

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Teymis, sagði á afkomufundi í morgun, að kerfið hafi verið skrifað mjög mikið niður í bókum.

Verðmæti kerfisins verður framvegis endurmetið í bókunum á hverju ári.   Teymi tapaði 4,9 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi, í kjölfar gengislækkunar krónu.