Teymi vísar á bug getgátum um að Vodafone og Tal hafi átt samráð um markaðsaðgerðir og mun ekki una bráðarbirgðaniðurstöðu Samkeppniseftirlitsins um að stofnunin skipi stjórnarmenn í stað þeirra sem áður sátu í stjórn Tals fyrir hönd Teymis.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Árna Pétri Jónssyni, forstjóra Teymis en í dag kynnti Samkeppniseftirlitið bráðabirgðaákvörðun vegna rannsóknar á meintum brotum Teymis hf. á samkeppnislögum.

Þar mælir Samkeppniseftirlitið fyrir um að fulltrúar Teymis hf. í stjórn IP-fjarskipta hf. (Tali) víki og í stað þeirra verði skipaðir tveir óháðir einstaklingar sem tilnefndir verða af Samkeppniseftirlitinu.

„Samkeppniseftirlitið vill sjálft skipa stjórnarmenn í stað þeirra sem áður sátu í stjórninni f.h. Teymis, en slíkt gæti augljóslega leitt til þess að Teymi hefði engin áhrif á stjórn Tals þrátt fyrir að eiga 51% í fyrirtækinu,“ segir í yfirlýsingunni frá Árna Pétri.

„Að mati Teymis er slík ákvörðun óviðunandi og því verður henni áfrýjað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.“

Þá kemur fram í tilkynningunni að við rannsókn málsins hafi Teymi lagt til við Samkeppniseftirlitið að stjórn Tals yrði að fullu skipuð óháðum aðilum á meðan rannsókn stæði yfir.