Mikil umræða hefur skapast um ákvörðun Landshelgisgæslunnar um að hætta notkun á flugvélinni TF-SIF.

Vélin var keypt árið 2009 og var kaupverðið, samkvæmt bókum Landshelgisgæslunnar, 4.364 milljónir króna. Í lok árs 2020 var vélin bókfærð á 2.640 milljónir króna.

Aðeins flogið i 395,5 stundir árið 2020

Ríkisendurskoðun gerði úttekt á verkefnum og fjárreiðum Landshelgisgæslunnar að beiðini Alþingis og skilaði henni í janúar 2022.

Þar kemur fram að árið 2020 var TF-SIF aðeins flogið í 126 flugstundir við strendur Íslands. Samtals voru flugstundirnar 395,5 það árið. Um 68% flugstunda voru í erlendum verkefnum á vegum Frontex, Landamæra- og strandgæslustofnunar Evrópu.

Rekstrarkostnaður vélarinnar árið 2020 nam 768,5 m.kr. Þar af var starfsmannakostnaður 483,4 m.kr. eða 63% af kostnaði við rekstur vélarinnar.

Viðhaldskostnaður nam 142 m.kr. eða 18,5% af kostnaðnum. Eldsneytiskostnaður var 26,4 m.kr. eða 3,4% rekstrarkostnaðnum.

Í skýrslunni segir:

Tvær áhafnir TF-SIF skipta með sér vöktum virka daga þegar vélin er á Íslandi.

Þegar hún sinnir verkefnum fyrir Frontex eru ferðir hverrar áhafnar skipulagðar í 18 daga í senn til að hámarka nýtingu innan ramma

kjarasamninga. Hver áhöfn TF-SIF samanstendur af tveimur flugmönnum, tveimur stýrimönnum auk flugvirkja sem ekki er um borð en sinnir tæknimálum fyrir og eftir flug. Flugmenn eru á fimm daga vöktum (08-20) en stýrimenn sjö daga (24/7).

Ekki verður séð að tekin sé afstaða í úttekt Ríkisendurskoðunar hvort skynsamlegt sé að halda úti tveimur áhöfnum þegar vélin er á Íslandi fyrir svo lítinn flugtíma.

Eins kemur ekki fram í úttektinni hvernig áhafnarmálum er háttað um helgar.

Viðhaldstímar 2.727

Í úttektinni kemur fram að viðhaldstímar vélarinnar voru 2.726,5 árið 2020. Það þýðir að flugvélin var í 5,25 sólarhringa á flugi yfir Íslandi og alls 16,5 sólarhringa á flugi. Hún var hins vegar 113 sólarhringa í viðhaldi.

Hlutfallið var svipað áirð 2019 en mun betra árið 2018.