Unnið er að frágangi samninga um að varðskipið Ægir og flugvél Landhelgisgæslunnar, TF SIF, verði leigð út ásamt áhöfnun í verkefni erlendis á vegum Evrópusambandsins í sumar.

Verkefnin koma til á hentugum tíma því vegna bágrar fjárhagsstöðu Landhelgisgæslunnar (LHG) var búið að gera ráð fyrir að Ægir lægi bundinn við bryggju og að flugvélin stæði óhreyfð í flugskýli LHG á þessum tíma .

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni (LHG) er gert ráð fyrir að heildarkostnaður við verkefnið verði um 3,7 milljónir evra eða um 650 milljónir króna, en innifalið í því er allur kostnaður við útgerð varðskipsins og gæsluflugvélarinnar, þar með talin laun, eldsneyti o.s.frv.

Verkefnin sem um ræðir eru á vegum landamærastofnunar ESB, Frontex, en bæði Sif og Ægir munu sinna gæsluverkefnum í S-Evrópu og við strendur Afríku. Megintilgangurinn er að gæta ytri landamæra Schengen-svæðisins en Ísland er aðili að Frontex í gegnum Schengen-samstarfið. Þannig felst verkefnið fyrst og fremst í því að fylgjast með umferð á hafi úti og skila upplýsingum til stjórnstöðvar sem staðsett verður í landi.

Áhafnarmeðlimum varðskipsins er ekki ætlað að stöðva eða handtaka fólk. Auk þessa þarf LHG að manna stjórnstöð á Kanaríeyjum vegna Ægis og í Grikklandi vegna flugvélarinnar.

Íslenskar áhafnir

Ægir mun í lok apríl sigla til Dakar í Senegal og mun í tvo mánuði sinna eftirliti á milli V-Afríku og Kanaríeyja. Eftir það verður skipið gert út frá Almeria á Spáni þar sem það mun sinna eftirliti við Gíbraltarsund út september.

Sif mun í lok maí fljúga til Lesbos í Grikklandi og sinna eftirliti með umferð á milli Tyrklands og Grikklands. Vélin kemur þó heim aftur í júlí og fer síðan aftur út í ágúst og september en þá til Dakar í Senegal. Áhafnir bæði flugvélarinnar og varðskipsins verða íslenskar en auk þess verður fulltrúi frá Senegal og/ eða Máritaníu um borð í Ægi meðan skipið verður við Vestur-Afríku.

Ekki gert ráð fyrir útgerð

Áður hefur verið fjallað um fjárskort Landhelgisgæslunnar og sem fyrr segir var ekki gert ráð fyrir flugvélinni og skipinu í rekstri í þann tíma sem þau verða í verkefnum erlendis.

„Rekstraráætlanir okkar gerðu ekki ráð fyrir útgerð á flugvélinni og skipinu á þessum tíma vegna þeirra þrenginga sem við höfum gengið í gegnum,“ segir Georg Kr. Lárusson, forstjóri LHG, í samtali við Viðskiptablaðið aðspurður um málið.

„Nú verður skipið í útgerð í stað þess að liggja bundið við bryggju þannig að við komumst hjá því að segja upp starfsfólki. Þá getum við einnig endurráðið hluta þess starfsfólks sem við þurftum að segja upp í fyrra.“

Þá segir Georg að auk þessa fái áhafnir skipsins og flugvélarinnar þjálfun fyrir