Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, gerir innflutning á hráu kjöti að umfjöllunarefni í nýrri grein á vefsíðu samtakanna. Segir hann að í ljósi afstöðu yfirvalda hér á landi til innflutnings á hráu kjöti væri kannski eðlilegast að allir þeir einstaklingar sem til landsins koma verði settir í sóttkví enda geta þeir borið með sér salmónellu- og saurgerlastofna sem aldrei hafa fundist hér. Vísar hann þar til ummæla fyrrverandi yfirdýralæknis og annarra stjórnvalda sem sagt hafa að bann við innflutnigni á hráu kjöti sé til þess að koma í veg fyrir að sjúkdómar berist til landsins.

„Á sama hátt hlýtur það að vera mjög ámælisvert að farfuglar fái óáreittir að koma til landsins. Ef hættan er svo mikil af hráu kjöti að loka verði landinu fyrir innflutningi á slíku kjöti þá skulum við ganga alla leið og fyrirbyggja smit sem getur borist í bústofn landsmanna á mun auðveldari hátt en með hráu kjöti.“

Tilefni greinaskrifanna er bréf, sem Eftirlitsstofnun EFTA sendi íslenskum stjórnvöldum vegna bannsins. Það er álit ESA að þetta bann gangi gegn frjálsu flæði vöru sem á að gilda á öllu EES-svæðinu.

Jóhannes segir að töluverður ávinningur myndi fylgja því að heimila innflutning á hráu kjöti. „Vegna stöðu krónunnar eftir hrun og hárra tolla sem lagðir eru á þessar vörur þurfa innlendir framleiðendur varla að óttast að þeir standist ekki verðsamkeppni við þær innfluttu. Ástæða er til að minna á að þegar ákveðið var að heimila frjálsan og tollfrjálsan innflutning á tómötum, agúrkum og paprika frá Evrópu voru ýmsir sem spáðu því að nú myndi innlend framleiðsla leggjast af. Niðurstaðan varð allt önnur, verð á þessum vörum lækkaði, framleiðslan innanlands jókst og innlendir framleiðendur högnuðust, enda kom í ljós að íslenskir neytendur voru tilbúnir til greiða hærra verð innlendu vörurnar en þær innfluttu. Þetta mun einnig eiga við um hrátt kjöt. Framboð og úrval í verslunum á kjöti myndi hins vegar aukast og þar með valkostir neytenda.“