„Að það dragi úr aukningu síðustu ára er það besta sem gæti komið fyrir okkur. Ég segi það af því að það er ekkert hrun fyrirsjáanlegt. Það eru að fara að koma til Íslands 2,5 til 3 milljónir ferðamanna á næsta ári. Það er heill hellingur af fólki. Ferðaþjónustan er komin til að vera,“ segir Edward Hákon Huijbens, prófessor við Háskólann á Akureyri, sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á ferðaþjónustu, í samtali við Viðskiptablaðið.

Tíðrætt hefur verið um ofris krónunnar, afbókanir í hópferðum, hátt verðlag, of hraða fjölgun á of stuttum tíma eða einfaldlega þá staðreynd að dregið hefur úr fjölgun ferðamanna á síðustu mánuðum í tengslum við ferðaþjónustuna. Eins og kom fram í úttekt Viðskiptablaðsins í síðustu viku hafði tekið að hægja á komum ferðamanna til landsins, sér í lagi á sumarmánuðum, og að það séu blikur á lofti.

Sú mikla hlutfallslega fjölgun ferðamanna sem var fyrstu fjóra mánuði ársins hélt ekki áfram í byrjun sumars. Til að mynda komu 146 þúsund ferðamenn til Íslands í maí sem er 17% aukning frá sama tíma í fyrra og í júní komu 222 þúsund ferðamenn til landsins, sem er 19% aukning frá sama tíma í fyrra. Enn fremur hefur verið bent á að neyslumynstur ferðamanna er að breytast á þann hátt að ferðamenn eyða minna, dvelja skemur og fara minna út fyrir suðvesturhorn landsins.

Hér er þó velt þeirri spurningu upp hvort þetta sé ekki einfaldlega eðlileg þróun að einhverju leyti? Sér í lagi hvað varðar fjölgun ferðamanna á landinu yfir sumarmánuðina. Til að mynda væri að líta á það sem svo að álagið væri að jafnast yfir árið og því væri fjölgunin meiri á veturna. Þeir sérfræð- ingar sem Viðskiptablaðið ræddi við telja það jákvætt að það hægist á fjölguninni, sér í lagi yfir sumarmánuðina. Einnig kemur fram í máli þeirra að bráðnauðsynlegt sé að bæta innviðauppbyggingu til að taka á móti ferðamönnum.

„Þessi mikla aukning mjög óheilbrigð“

Dr. Edward Hákon Huijbens segir að honum þyki stórundarlegt að það sé talað svo, að það sé slæmt að það dragi úr aukningunni sem hefur verið undanfarin ár. „Þessi mikla aukning sem hefur verið er mjög óheilbrigð og við sjáum þess merki alls staðar. Við ráðum ekkert við þetta, það er augljóst mál. Það sem blasir við er að innviðir eru ekki fyrir hendi. Þetta hefur sprungið út einhvern veginn.“

Edward segir enn fremur að vandinn sem við eigum fyrir hendi sé að ferðaþjónustan er of samþjöppuð á suðvesturhorni landsins. „Árstíðasveiflan er mjög mikil annars staðar en á suðvesturhorninu, svo mikil að menn eiga erfitt með það að að byggja hótel eða nauðsynlega innviði. Sveiflan hefur verið að ágerast meðal annars vegna styrkingar krónunnar og verðlags,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .