Fríða Hrönn Elmarsdóttir var á dögunum ráðin framkvæmdastjóri Félags viðskipta- og hagfræðinga. Hún er með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Copenhagen Business School. Lengst af hefur Fríða starfað hjá fyrirtækinu Nordic Games en þar hafði hún umsjón með púsl- og spilaútgáfu fyrirtækisins. Þar áður starfaði hún hjá Viðskiptablaðinu, Rafbraut og Landsbankanum svo nokkur dæmi séu tekin.

Umfangsmikið starf

Starf Fríðu hjá Félagi viðskipta- og hagfræðinga er nokkuð umfangsmikið en hún segir starfsemi félagsins mun virkara en hún hafði gert ráð fyrir í upphafi. „Við erum með hádegisfundi sem við höldum vikulega að vetri til auk þess sem við erum með fræðslufundi í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands og Opna Háskólann hjá Háskólanum í Reykjavík. Við gefum út tímaritið Hag tvisvar á ári, við erum með kjarakönnun viðskipta- og hagfræðinga og svo stefnum við á að endurvekja okkar árlega golfmót. Utan þess sé ég um daglegan rekstur og önnur hefðbundin störf félagsins,“ segir Fríða.

Í haust stefnir Fríða síðan á frekara nám en hún ætlar sér í meistaranám í reikningsskilum og endurskoðun. Hún segir námið vera gamlan draum hjá sér. „Það blundar í mér endurskoðandi,“ segir hún. „Ég ákvað að þetta væri rétti tímapunkturinn til að fara í nám en endurskoðun hefur heillað mig í þónokkurn tíma þó mig hafi ekki beinlínis dreymt um að verða endurskoðandi síðan ég var lítil.“

Nánar er rætt við Fríðu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .