Reynir Grétarsson, stofnandi og forstjóri Creditinfo, segir að til að hagkvæmni sé í kerfi, hvaða kerfi sem það sé, þurfi að vera hægt að verðleggja hluti í samræmi við það sem þeir kosta, en ekki bara hvað fólk er tilbúið að greiða fyrir þá.

„Fjármagn er ekkert frábrugðið öðrum vörum eða þjónustu hvað þetta varðar. Kostnaður við að veita lán ræðst aðallega af þremur þáttum. Kostnaði við fjármögnun, rekstrarkostnaði og endurheimtum af láninu. Hér hefur aðallega verið horft á fyrstu tvo þættina, en endurheimturnar ráða að sjálfsögðu mjög miklu um ábatann af starfseminni. Ef tíu prósent af útlánum skila sér ekki til bankans þá þurfa hin 90% að standa undir öllum kostnaðinum við lánasafnið.“

Reynir segir það stóran galla á íslenska kerfinu að allir fá hér lán á sömu, eða mjög svipuðum kjörum. „Stundum er sagt að styrkur bandaríska hagkerfisins sé sá að þar hafi allir aðgengi að fjármagni á réttu verði. Gjaldþrota einstaklingur getur fengið lán, en hann gæti þurft að sætta sig við 30% vexti, en sá sem er mjög góður skuldari getur e.t.v. fengið lán á 1%. Þetta er gríðarlega hagkvæmt kerfi, en þessa hagkvæmni vantar í íslenska kerfið. Sá sem hefur alltaf staðið í skilum og er líklegur til að halda því áfram á að njóta þess að fá betri lánakjör.

Í þessu er innbyggður hvati að passa upp á að þú haldir þig réttu megin við línuna, að standa í skilum og skuldsetja sig hæfilega, því lánshæfið hefur áhrif á útgjöld heimilisins. Þennan hvata hefur vantað hér, en við erum þó að sjá breytingar í rétta átt þar sem lánshæfi ræður lánshlutfalli, vaxtakjörum og kröfum um tryggingar eða ábyrgð.“

Ítarlegt viðtal við Reyni er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .