*

laugardagur, 31. október 2020
Fólk 9. ágúst 2020 19:01

Það er enginn dagur eins

Jóhann Möller tók nýverið við starfi framkvæmdastjóra Stefnis.

Magdalena A. Torfadóttir
Jóhann Möller tók nýverið við starfi framkvæmdastjóra Stefnis.
Gígja Einars

 „Það leggst mjög vel í mig að taka við þessu starfi. Það eru spennandi og krefjandi tímar framundan,“ segir Jóhann Möller en hann hefur starfað á fjármálamarkaði í um 20 ár. „Ég byrjaði í Kaupþingi í Ármúla en á þeim tíma störfuðu aðeins um 50 starfsmenn hjá fyrirtækinu. Ég hef því verið innan þess fyrirtækis sem ég starfa nú hjá alveg frá aldamótum. Ég byrjaði í lífeyris- og verðbréfaráðgjöf og fór síðan yfir í verðbréfavörslu hjá Arion banka og fór síðan að starfa hjá Stefni árið 2006. Síðan þá hef ég starfað við eignastýringu innlendra hlutabréfasjóða.“

Jóhann bætir við að það sem heilli hann mest við fjármálageirann sé hversu kvikur og síbreytilegur hann sé. „Það er enginn dagur eins í eignastýringu og fjármálageiranum. Það má í raun segja að maður sé að fást við nýtt starf á hverjum degi. Það er mjög gaman að takast á við nýjar aðstæður og áskoranir sem blasa við manni á hverjum einasta degi. Það er líklega ástæðan fyrir því af hverju maður hefur enst svona lengi í starfinu.“ Jóhann er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hann segir að viðskiptafræðin hafi ávallt heillað hann. „Það var um 1999 sem ég fór í háskólann og ég valdi viðskiptafræði því mér þótti hún mest spennandi.“

Jóhann er giftur Guðrúnu Drífu Hólmgeirsdóttur, endurskoðanda og fjármálastjóra Ó Johnson & Kaaber, og eiga þau saman tvö börn, þau Kristján Lúðvík 12 ára og Tinnu Maríu 8 ára. „Börnin okkar eru mikið í íþróttum og við erum öll mikið íþróttafólk. Eitt af því skemmtilegasta sem við gerum er að fara með börnunum okkar á íþróttamót hvort sem það er í handbolta, fótbolta eða fimleikum. Við spilum líka öll golf saman.“ Hann bætir við að hann sjálfur sé mikill skíðaáhugamaður. „Ég er skíða mikið á hefðbundnum svigskíðum en síðan hef ég upp á síðkastið verið mikið í fjallaskíðamennsku. Þau áhugamál sem eiga hug minn allan eru golf og skíði.“

Spurður hvort hann hafi ferðast mikið í sumar segir Jóhann að hann hafi ferðast nokkuð með fjölskyldunni. „Eins og svo margir Íslendingar þá fórum við hluta úr hringveginum í sumar. Við fórum Suðurlandið og Austfirðina en komumst ekki norður vegna veðurs, það verður að bíða betri tíma. Síðan höfum við fjölskyldan hug á því að ferðast enn meira og skoða heiminn þegar tími gefst til. Um þessar mundir hef ég sökkt mér í verkefnin og ákveðið að láta fríið bíða meðan maður er að koma sér fyrir í nýja starfinu.“