„Skipulegar skemmtiferðir og lystireisur hingað til lands hófust ekki fyrr en seint á 19. öldinni, þegar skipakomum fjölgaði. Þá skapaðist grundvöllur fyrir ferðaþjónustu og fyrstu útibú erlendra ferðaskrifstofa voru opnuð hér á landi. Þar með hófst magnað ferli, þar sem sjálfsögð gestrisni við fáeina ferðamenn þróaðist í að verða stærsta atvinnugrein þjóðarinnar, og sér ekki fyrir endann á því ævintýri."

Þetta kemur fram í kynningu Samtaka ferðaþjónustunnar á nýrri bók sem samtökin eru að gefa út. Útgáfan er stykrt af atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Bókin nefnist: „Það er kominn gestur - saga ferðaþjónustu á Íslandi" og er skrifuð af Helgu Guðrúnu Johnson og Sigurveigu Jónsdóttur.

„Saga skipulegrar ferðaþjónustu á Íslandi er ekki löng í sögulegu samhengi, en hún er þeim mun ævintýralegri. Frásagnir ferðalanga og landkönnuða sem sóttu landið heim á fyrri öldum eru merkar heimildir, og vitna jafnt um fordóma og fáfræði sem forvitni og aðdáun. Slíkar heimsóknir voru svo fáar að þær rötuðu í annála hér heima og ófá rit voru gefin út erlendis um upplifun og rannsóknir ferðlanganna, gjarnan prýdd ómetanlegum myndum. Íslenskir fræðimenn fóru svo smám saman að kanna landið sitt og skrifa um það, meðal annars í þeim tilgangi að ryðja úr vegi ýmsum bábiljum í ritum útlendinganna."

saga ferðaþjónustunnar
saga ferðaþjónustunnar