Glæsimarkaðurinn svokallaði opnar í annað sinn í gamla Toyotahúsinu við Nýbýlaveg í Kópavogi um helgina. Þar kemur saman fjöldi netverslana og kynnir vörur sínar. Markaðurinn verður opinn laugardag og sunnudag.

Sverrir Eiríksson er eigandi húsnæðisins og leigir það út. „Þetta hefur verið einu sinni áður og þá troðfylltist allt af fólki. Núna erum við með opið í tveimur 800 fermetra sölum. Þetta er eitthvað alveg einstakt og það myndast einstök stemning þarna,“ segir Sverrir.

Hugmyndina að Glæsimarkaðnum fékk Sísí Ásta Hilmarsdóttir, eigandi netverslunarinnar krummafotur.is og segist Sverrir í raun vera aðstoðarmaður Sísíar í þessu. „Hún upplifði það sjálf þegar hún byrjaði að fólk vildi geta þreifað á vörunni og það er í raun hugsunin á bak við markaðinn. Fólk getur komið hingað og annað hvort keypt á staðnum eða síðar á netinu. Það er svo mikil gróska í þessari netverslun. Alls konar nýir hlutir og mikið af flottum íslenskum hönnunarvörum. Fólk er í hönnun og framleiðslu á alls konar vörum sem ég hreinlega vissi ekki að væru til.“