Kosningasvik voru framin á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar þann 6. júlí síðastliðinn, að mati Guðmundar Kristjánssonar, útgerðarmanns og hluthafa í fyrirtækinu. Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að á fundinum hafi úrslit löglegs stjórnarkjörs verið hunsuð og að tvær kosningar, sem fram fóru í kjölfarið, hafi verið ólöglegar. „Á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar var lögleg kosning og við höfum öll gögn um það. Talningu atkvæða var lokið og við eigum myndir af talningarniðurstöðunni. Það þýðir í raun ekkert að þræta um þetta, enda eru þetta staðreyndir málsins.

Guðmundur segir málið í raun ekki vera flókið. „Stjórnarkjör fór fram í félaginu, en vegna þess að meirihlutinn var óánægður með niðurstöðuna var ákveðið að kjósa aftur og var þá niðurstaðan þeim mun hagfelldari. Í stað þess að vera með þrjá af fimm stjórnarmönnum, eins og þeir voru með eftir fyrri kosninguna, fengu þeir fjóra af fimm. Ég sat fundinn ekki sjálfur, en ég var á öðrum fundi í bænum þegar ég fékk símtal frá Ingvari þar sem hann sagði við mig að það væri verið að „svindla í beinni“ á fundinum. Ég lagði þá til við þá að þeir Runólfur Guðmundsson tækju ljósmyndir af öllu og öllum á fundinum. Það gerði ég til að við hefðum sem mest sönnunargögn um það hvað raunverulega hefði farið fram. Fulltrúar meirihlutans mótmæltu harðlega myndatökum, en höfðu ekki erindi sem erfiði. Það segir nokkuð um þá heift sem einkennir framgöngu meirihlutans í félaginu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.