Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sparaði ekki stóru orðin gegn ríkisstjórninni í innleggi sínu þegar vantrauststillaga Þórs Saari var tekin fyrir á Alþingi í dag. Síðan Þór lagði vantrauststillöguna fram klukkan hálf ellefu í morgun hafa 26 þingmenn hafa farið í pontu og ýmist talað gegn tillögunni eða mælt með henni. Búist er við því að kosið verði um frávísunartillögu Þórs klukkan hálf fjögur í dag.

Háreysti hafa verið á þinginu þar sem þingmenn hafa mótmælt fullyrðingum mótherja í pólitík með frammíköllum.

Gjammandi þingmenn

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Ragnheiður fór t.d. mikinn í ræðu sinni. Hún sagði m.a. að henni hafi ekki líkað það ferli sem endurskoðun stjórnarskrá fór í. Það hafi gleggst komið í ljós þegar breið fylking fólks af landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu náði ekki kosningu inn í stjórnlagaráð. Þangað hafi hins vegar komist þekkt andlit í fréttum og sjónvarpi.

Þá sagði hún m.a. mikið um að misskilningur hafi komið upp á Alþingi í tengslum við endurskoðun stjórnarskrárinnar, svo sem því að Sjáflstæðisflokkurinn hafi verið mótfallinn því að auðlindir landsins yrðu í eigu ríkisins. „Ég hef alltaf verið hlynnt því,“ sagði Ragnheiður.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra kallaði hins vegar fram úr þingsalnum: „Alltaf!“

Ragnheiður brást við og vísaði því á bug: „Það verður ekki satt þótt þú gjammir alltaf fram í þá veru,“ svaraði hún.

Ragnheiður ítrekaði að hún beri ekki traust til ríkisstjórnarinnar. Eitt mál standi þó upp úr störfum hennar sem valdi því að hún styðji vantrauststillöguna.

„Þó það sé ekki nema vegna landsdómsmálsins, kæri forseti, sem stjórnarflokkarnir hér ásamt aðstoð annarra þingmanna, knúðu fram. Þáttur þeirra er til þeim til ævarandi skammar. Þar tók steininn út þegar síðan var gert tilraun til að koma í veg fyrir það ódæði að draga til baka ákæru á hendur ákæru á hendur Geirs H. Haarde. Þá sat ríkisstjórnin hjá,“ sagði Ragnheiður.

„Ekki utanríkisráðherra!“ svaraði Össur.

Og því svaraði Ragnheiður: „Mér er slétt sama þótt hæstvirtur utanríkisráðherra gjammi hér fram. Hann er partur af ríkisstjórninni. Það fer honum þó stundum betur að þegja!“