Stjórnarmaður hjá Brammer Ísland segir að fyrirtækið hafi ekki nýtt sér gjaldeyrisútboð Seðlabankans. Hann segir jafnframt að ekki sé heimilt að nýta fjárfestingarleiðina til að fjármagna daglegan rekstur og furðar sig á því að sum fyrirtæki virðist hafa flutt inn gjaldeyri í þeim tilgangi.

Nokkuð hefur borið á því að erlend félög hafi nýtt sér gjaldeyrisútboð Seðlabankans til að styrkja rekstur fyrirtækja sinna á Íslandi. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á vormánuðum hafa borist kvartanir til Samkeppniseftirlitsins vegna þess að fyrirtæki, sem hafa greiðan aðgang að erlendum gjaldeyri t.a.m. í gegnum erlend móðurfélög, nýti sér afslátt á krónum sem fæst með fjárfestingarleiðinni, til að fjármagna rekstur fyrirtækisins. Þannig geti þau undirboðið fyrirtæki sem ekki hafa greiðan aðgang að erlendu fé og komist í mun betri samkeppnisstöðu fyrir vikið.

Sumum veittar heimildir en öðrum ekki

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gætir óánægju vegna þessa meðal fyrirtækja sem þjónusta stóriðjufyrirtæki á Íslandi. Íslenska fyrirtækið Brammer, sem sérhæfir sig í að þjónusta stóriðjufyrirtæki og er í eigu erlends félags, hefur ekki nýtt sér fjárfestingarleiðina, að sögn Sigurðar Valgeirs Guðjónssonar, lögfræðings og stjórnarmanns í Brammer. „Brammer hefur aldrei nýtt sér þetta. Við skoðuðum þetta á sínum tíma, hvort þetta gæti verið skynsamlegt og fórum að greina lögin og hvaða heimildir væru til staðar.

Það er ekki heimild til þess að koma með gjaldeyri inn í landið, taka þátt í útboði Seðlabankans og fá afslátt á krónunum ef það er verið að nota fjármunina í daglegum rekstrartilgangi,“ segir Sigurður. Athygli vekur að samkvæmt ársreikningi Brammer hafa skuldir íslenska fyrirtækisins við tengda aðila aukist margfalt á síðustu árum. Að sögn Sigurðar hefur móðurfélagið vissulega fjármagnað uppbyggingarstarfsemi fyrirtækisins á Íslandi, en það hafi ekki verið í gegnum fjárfestingarleiðina, heldur á hefðbundnu gengi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .