Björn Leifsson, oft kallaður Bjössi í World Class, er flestum Íslendingum kunnugur fyrir það að reka stærstu líkamsræktarkeðju landsins. Hann hefur lengi verið á milli tannana á fólki og þá sérstaklega eftir hrun en hann hefur m.a. verið sakaður um að vera kennitöluflakkari.

En bara svo ég spyrji þig hreint út, þú nefnir að þú hafir verið ræddur í neikvæðu ljósi. Ertu afskriftakóngur eða kennitöluflakkari?

„Nei, ég hef ekki fengið krónu afskrifaða neins staðar. Það hefur verið hamast stöðugt á því að ég sé kennitöluflakkari. Málið er að ég var með tvær kennitölur í þessum rekstri. Önnur kennitalan átti húsnæðið hérna og öll tækin og hin kennitalan sá um reksturinn, það var þetta félag, Þrek ehf. Þegar fór að halla undan fæti með rekstrarkennitöluna, sem var m.a. í ábyrgð fyrir kaupunum í Danmörku, og rekstrarhæfi hennar var ógnað, þá keypti ég rekstrarfjármuni úr þeirri kennitölu yfir í Laugar sem áttu öll tækin og búnaðinn og færði reksturinn þangað yfir.“

Áttu þá við að þetta snúist frekar um bókhald en að koma fjármunum undan kröfuhöfum?

„Í raun og veru, því þetta snerist ekkert um það að koma þeim undan. Því ef félagið er orðið órekstrarhæft þá er ekkert eftir í því. Þrek átti ekki einu sinni tækin, átti ekkert, ekki einu sinni World Class nafnið. Ég átti það. Skiptastjóri Þreks höfðaði fimm mál gegn mér þrátt fyrir vera þá þegar búinn að tapa tveimur.

Þá býður helsti kröfuhafi Þreks sem var Straumur mér samning sem ég tók og ég er búinn að gera upp þann samning. Í kjölfarið var þetta allt afturkallað. Ég get þannig með góðri samvisku sagt að ég hafi alltaf staðið við mínar skuldbindingar og ég fékk félagið aftur í hendur frá skiptastjóra, sem er nánast einsdæmi í svona stöðu. Ég á því þessa kennitölu ennþá og hún lifir góðu lífi. Ég er búinn að gera allt upp og skulda engum neitt. Það hefur því enginn tapað á viðskiptum við mig.“

Björn er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .