Það hefði jafngilt pólitísku sjálfsmorði fyrir stjórnmálamann að mæla með því vorið 2006 að gripið yrði til aðgerða til að minnka bankakerfið, draga úr útlánaþenslu bankanna og hægja á hagkerfinu. Tækifærið til að gera það fyrir hruns gafst á vordögum 2006 eftir útkomu skýrslu Danske Bank, Iceland: Geyser Crisis , sem fjallaði um bankana og áhættuna í efnahagslífinu. Það var ekki gert. Í raun var engin stemning fyrir þeim sem vildu að stigið yrði á bremsuna, að því er fram kemur í bók Guðrúnar Johnsen, lektors í fjárálum við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Enginn vildi hlusta á varnaðarorð

Guðrún hefur skrifað bók sem heitir Bringing Down the Banking Systems: Lessons From Iceland. Bókin fjallar um hrunið, aðdraganda þess og afleiðingar. Guðrún vann fyrir rannsóknarnefnd Alþingis og byggir bók sína að stærstum hluta á því sem fram kom í skýrslunni. Inn á milli heyrist rödd Guðrúnar, sem skrifar um sýn sína á hrunið og hvernig aðdragandi þess snerti hana.

Í bókinni lýsir Guðrún því m.a. þegar hún vann hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum árið 2004 . Þar vann hún m.a. mat á áhættugreiningu samkvæmt ákveðnu módeli. Þar var metið hvað lönd gætu hugsanlega lent í hremmingum. Ísland var eitt þessara landa ásamt Líbanon. Árið 2005 reyndi hún ítrekað að kynna niðurstöðurnar og vara við þróuninni.

Guðrún lýsir því í bókinni hvernig hún bankaði upp á hjá nokkrum aðilum. Þar á meðal hjá Seðlabankanum, í Stjórnarráðinu og hjá Fjármálaeftirlitinu. „Menn höfðu ekki einu sinni áhuga á fyrirlestri í klukkustund,“ segir Guðrún.

Viðskiptablaðið ræddi við Guðrúnu í tilefni útkomu bókarinnar í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .