Hjörvar Hermannsson, sem er annar aðstandenda Fjáröflun.is segir í samtali að íþrótta- og æskulýðsstarf sé gífurlega vinsælt á Íslandi og að það hafi verið rík hefð fyrir því að hópar og einstaklingar fjármagni starfsemi sína með fjáröflunum. „Það er í raun ótrúlegt hve sterk sú hefð er. Hingað til hafa foreldrar mestmegnis verið að taka þetta á sig. Því fylgir talsvert vesen, að fá blöð send frá þessum birgjum, svo þurfa foreldrarnir að hugsa um allar pantanir og að innheimta greiðslu og skilja framlegðina eftir til hlið- ar. Það er komið 2017 og það er markaður fyrir það að vera með vettvang fyrir þetta,“ bætir Hjörvar við.

Hann segir að hugmyndin hafi kviknað þannig að hann hafi sjálfur verið virkur í íþróttastarfi og hafði tekið þátt í fjölmörgum fjáröflunum. „Það sem hefur verið helsti ókosturinn við fjáraflanir hefur verið umstangið í kringum þetta. Með þessu móti fannst mér vera vöntun á þjónustu sem einfaldar allt ferlið. Foreldrar sem hafa nýtt sér þetta hingað til hafa verið guðslifandi fegnir. Að fá ágóðann bara lagðan inn á sig auðveldar ferlið,“ segir Hjörvar.

„Að springa utan af sér“

Spurður að því hvernig verkefnið fer af stað segir Hjörvar að fyrstu mánuðirnir hafi verið nokkurs konar prufukeyrsla þar sem þeir buðu upp á einfaldar vörur. „Núna höfum við rúllað á nokkur hundruð manns og tugi hópa. Eins og staðan er er þetta svolítið að springa utan af sér. Fólk er að átta sig á hvað þetta er einfalt og þægilegt, það rignir inn fyrirspurnum“.

Hjörvar tekur fram að það sé aðallega gott orðspor sem hefur reynst besta auglýsingin hingað til. „Það er fullt af foreldrum sem nenna ekki að taka þátt í fjáröflunum, vegna þess að það er vesen. En þetta gerir fólki kleift að taka þátt sem hafði áður ekki tekið þátt í fjáröflunum,“ bætir hann við að lokum.