*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Erlent 18. ágúst 2014 11:12

Það sem þú vissir ekki um BuzzFeed

Vefmiðillinn BuzzFeed fékk 50 milljóna dollara fjárfestingu í síðustu viku.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Fyrr í vikunni tilkynnti vefmiðillinn vinsæli BuzzFeed að hann hygðist víkka út starfsemi sína umtalsvert í kjölfar 50 milljóna dollara fjárfestingar frá fjárfestingarfélaginu Andreessen Horowitz. Andreessen Horowitz hefur áður fjárfest í fyrirtækjum á borð við Facebook og Airbnb og þykir stuðningur þess bera vott um mikla vaxtarmöguleika vefmiðilsins. Framlag fjárfestingarfélagsins veitir því 6% hlut í fyrirtækinu og ef það er framreiknað þá er hægt að gera ráð fyrir því að heildarvirði vefmiðilsins sé um 850 milljónir dollara samkvæmt heimildum New York Times.

Flestir þekkja BuzzFeed fyrirað vera frumkvöðull í að búa til svokallað „viral“ efni á netinu sem deilist hratt og víða á samfélagsmiðlum á borð við Facebook og Twitter. Margir kannast eflaust við lista eins og „22 myndir af sætum köttum“ og greinar eins og „Þetta myndband segir allt sem segja þarf um manngæsku í heiminum“ en hvert einasta framlag vefmiðilsins er miðað að því að því sé dreift áfram sem víðast. Nú síðast hefur BuzzFeed víkkað út starfsemi sína til fréttamiðlunar en ritstjórnarteymi fyrirtækisins telur í dag um 200 manns.

En BuzzFeed er ekki eins og hver önnur vefsíða og nú ætti fjárfesting Andreessen Horowitz að vekja fólk til vitundar um það. Héðan í frá mun fyrirtækið skipta upp ritstjórnarteymi sínu í þrjár deildir auk þess sem það mun búa til sérmyndbandsdeild sem mun kallast BuzzFeed Motion Pictures. Aukin áhersla verður einnig lögð á alþjóðlega dreifingu vefmiðilsins auk þess sem öll þjónusta fyrirtækisins við auglýsendur verður sett undir einn hatt, BuzzFeed Creative, þar sem sértæk auglýsingaþjónusta verður veitt til fyrirtækja.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: BuzzFeed